fimmtudagur, apríl 28, 2005

Ég skellti mér í búðir í dag! Sem þykir ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að ég ákvað að breytast í hagsýna húsmóður (eða frekar hagsýnan stúdent) og taka Tax Free. Þar sem styttist óðum í heimferð þá finnst mér ekkert vitlaust að taka Taxfree á það sem ég versla hér eftir. Ég sem sagt bið um taxfree-ið og ekkert mál, afgreiðslumaðurinn stimplar allt í kassann, setur í poka og ég borga og fylli út taxfree eyðublað. Nema hvað.... maðurinn INNSIGLAR pokann, heftar á tveimur stöðum og límir svo 2 límmiða yfir sem ekki má rífa, DO NOT BREAK THE SEAL!!
Nú sit ég í herberginu mínu og horfi með angistaraugum á pokann með nýja dótinu mínu sem ég má ekki opna fyrr en eftir rúman mánuð :O(

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Ég var búin að lofa sjálfri mér að halda upp á próflok í búðunum og það var gert að hluta til í gær.... aahhhh það er svo gott að fá verðlaun þegar maður á þau skilin :O) Það eru sem sagt komin 2 pör af skóm í hús... og hver veit hvað ég geri á morgun??

Framundan er svolítið af rólegheitum, svolítið af lærdómi, svolítið af búðum og svo koma mamma og pabbi eftir 10 daga jibbí :O) Ég náði að múta nokkrum vinum mínum með mat ef þau myndu þrífa fyrir mig íbúðina sem mamma og pabbi verða í. Það var ekki erfitt, sagði þeim bara að þetta yrði svakaleg máltíð með bláberjaköku og vanillusósu í eftirrétt og þau steinlágu hehehe ;O) Þannig að það verður international útgáfa af Allt í Drasli hér í Flemingsberg í næstu viku!

laugardagur, apríl 23, 2005

Ég græt af gleði ;O)

Mig langaði að deila einu smá með netheiminum en hef ekki viljað segja neitt fyrr en ég fengi staðfestingu og nú er hún sem sagt komin.... ég er búin að láta svona allra nánustu vita og nú megið þið fá að vita...
Ég er ól....
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
ýsanlega ánægð því ég er búin að ná stærðfræðigreiningu fokking 2B !!!!!!!!!!!!!!!!!
Múahahahahahahahaahahahahahahahahah :OD

föstudagur, apríl 22, 2005

Þýskir gullmolar

Ok ekkert búin að blogga því þetta hafa ekki verið skemmtilegir síðustu dagar... læra læra læra....
Það birti þó heldur yfir minni í dag þegar ég fékk 10 á straumfræðiprófi, fékk sumarpakka frá Silju minni, fór út í fótbolta og sá nýjar myndir af Brynhildi Evu sætu snúllu! Já dagur var sem sagt góður ;O)

Ég hef verið að safna saman þýskum gullmolum og langar að henda þeim öllum hér inn við tækifæri en mig grunar að sú færsla yrði allt allt of löng þ.a. reyni að setja einn og einn þegar þannig liggur á mér (held samt að þessi færsla gæti orðið nokkuð löng þar sem margt er enn í fersku minni). Veit ekki hvort þetta sé bara steikti húmorinn minn en ég get allavega migið í mig af hlátri þegar ég hugsa um og les þessar gullnu setningar, kannski líka stundum svona "had to be there" moment en ég læt þetta bara gossa beint í br..... :O)

Fyrst smá útskýringar: K= Katrín, A= Allra þjóða kvikindi nema þjóðverjar, Þ= Mismunandi þjóðverjar [reyni að skíra Þ1, Þ2 o.s.frv til að hægt sé að gera e-n greinarmun á þeim].

Í mat með fullt af skiptinemum...
A [frá Brasilíu]: Hei ég er með rosalega góðan geisladisk frá Brasilíu, verð að leyfa ykkur að heyra hann einhvern tímann!
Þ1: Ha? Komstu með geisladiska með þér til Svíþjóðar???
A: Já nokkur stykki, er eitthvað að því?
Þ2: Auðvitað... hann ferðaðist nottla ekki hingað með Ryan Air!

Á salatbar í skólanum þar sem maturinn er vigtaður á diskinn....
Þ3: Hvað kostaði maturinn þinn?
K: [svelgdist nánast á...] Ha? ertu að spurja hvað maturinn minn kostaði?
Þ3: Já, hvað var diskurinn þinn þungur?
K: Held ég hafi borgað 38 kr.
Þ3: hmmm... ég borgaði 40 kr.

Í búðinni...
Þ1: Ætlaru að kaupa poka??
K: Já, einhvern veginn verð ég að koma dótinu heim.
Þ1: Þú getur sett allavega eitthvað í bakpokann hjá mér.
K: Neinei þetta kemst alveg allt í pokann, takk samt.
Þ1: Hvað borgaðiru fyrir þetta?
K: [orðin vön svona spurningum] Þetta kostaði 160 kr.
Þ1: Vá... ég borgaði bara 100 kr. Já þú keyptir líka ís og roll on, það telur....

mánudagur, apríl 18, 2005

Ég er hömlulaus ofæta...

Horfði á einn þátt með Sirrý um daginn þar sem hún talaði við konur í OA og þær kynntu sig svona: Ég er hömlulaus ofæta, vigta matinn minn og blablabla... Ég gat nú ekki annað en fundið til með þessum konum þó ég hafi verið við það að skella upp úr þegar þær kynntu sig. Það getur ekki verið skemmtilegt að vera með 60 aukakíló og geta ekki hætt að borða. Stundum hefur mér nú liðið eins og fitubollu á hlaðborði en held ég hafi aldrei komist með tærnar þar sem þessar konur hafa hælana hvað mat varðar. Ég ákvað líka að vera rosalega hamingjusöm með mín örfáu aukakíló ;O) og halda áfram að gúffa í mig kvöldmatnum!

Annars er það að frétta að ég er byrjuð að pakka niður... hehehe já allavega finna til dót sem mamma og pabbi ættu kannski að geta tekið fyrir mig heim! Held ég sé búin að missa vitið en svona er það þegar ég er að læra fyrir próf, alltaf tekst mér að finna eitthvað annað ómerkilegra að gera :O)

sunnudagur, apríl 17, 2005

ohhh mig langar heim til Íslands núna... Hef ekki gert neitt annað en að læra síðustu daga og er alveg komin með nóg! Fór ekki einu sinni út úr húsi í gær :O(
Er sem sagt að fara í próf á miðvikudag, föstudag og mánudag (25.apríl) svo næsta vika verður algjört æði eða þannig.

En ef allt gengur vel þá er ég búin að lofa sjálfri mér verðlaunum, leyfa mér að versla smá, jafnvel buxur, bol eða eitt sem alltaf er vinsælt: SKÓR !!! Ég er bara búin að kaupa 2 pör af skóm hérna úti og þykir það mjög lélegur árangur hjá henni Katrínu miðað við svo langa dvöl erlendis ;O) Er líka komin með nokkuð langan innkaupalista því mig langar aðeins að dressa mig upp af almennilegum fötum áður en ég kem heim. Vona bara að ég komi öllu draslinu yfir Atlantshafið í lok maí... humm...

Svo eru bara rétt tæpar 3 vikur í að mamma og pabbi koma í heimsókn, það verður stuð :O)

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Í sænskutíma...

Kennari: Hvernig lýsið þið kostum ykkur? T.d. þegar þið sækið um vinnu? Komið með einhver lýsingarorð...

Katrín: (það fyrsta sem mér dettur í hug og ég kann að segja á sænsku) Reyklaus, vinnusöm....

Kennari: *fliss fliss* Reyklaus?? hahaha eru það kostir???

Katrín: Já mér finnst það allavega og held það sé almennt þannig á Íslandi...

Kennari: (í hæðnistón) Krakkar þá vitið þið það, ef þið ætlið að sækja um vinnu á Íslandi þá er það kostur að vera reyklaus! Hahaha....

Bíddu bíddu... er það ég sem er orðin eitthvað klikk í haus eða er kennarinn geimvera??

Hér er lítið raunverulegt dæmi um kosti reykleysis eða öllu heldur galla reyks:
Gleymi því ekki þegar ég var í Garðaskóla og einn kennarinn minn reykti meira en versta púströr. Það var ekki hægt að biðja hana um hjálp því þegar hún fletti bókunum þá komu gul fingraför á blaðsíðurnar, nemendurnir visnuðu af fýlunni sem fylgdi henni og þurftu að halda niðrí sér andanum á meðan hún talaði til að falla ekki í yfirlið. Spurning hvort þetta hafi verið liður í forvarnarstarfi skólans: "Krakkar svona eigi þið ekki að gera..."
Æi... held ég sé tábrotin :O( Sparkaði aðeins einu sinni með stóru tánni í gær og nú er hún í rústi... Þarf ég nokkuð að láta kíkja á það, það er hvort eð er ekkert gert við tábroti ekki satt??

Gat ekki annað en skellt upp úr í lestinni í morgun þegar ég las blaðið Metro. Þar rakst ég á fyrirsögnina: Viktoria klappar geit. Svíarnir eru svo rosa hrifnir af kóngafjölskyldunni sinni að það þykir til tíðinda þegar Viktoría gælir við dýrin. Bíð bara eftir: Viktoría skreppur á klósettið... eða Viktoría snýtir sér.... Þetta er kannski alveg eins og heima þegar fyrirsagnirnar hljóma eitthvað á þessa leið: Dorrit leikur sér í LEGO :O)

miðvikudagur, apríl 13, 2005

hæ... var aðeins að ljúga að ykkur þarna áðan, hef nefninlega ekki lesið Grafarþögn... ruglaði henni óvart saman við Dauðarósir sem ég hef svo sannarlega lesið ;O) já og coverin á bókunum eru ekki eins og heima, miklu miklu flottari hér...

Var að koma inn úr fótbolta og þetta er klárlega eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert hér í Stokkhólmi (þó ég sé með bólgnar tær og smá hölt...) Við erum búin að stofna fótboltaklúbb, nafn við hæfi væri sennilega FC Flempan, og ætlum að spila a.m.k. einu sinni í viku.
Vill einhver spila fótbolta með mér í sumar????
Bók eftir bók eftir bók eftir......

Ég er að klára bók númer 3 í seríunni um Strákinn sem var kallaður "Þetta", las reyndar ekki bók nr.2 því mér fannst nóg um misþyrmingar í bók nr.1 en allavegana .......... fór í bókabúð í dag og sá að gaurinn er búinn að gefa út bók nr.4 !!!! Hvursu lengi ætlar hann eiginlega að blóðmjólka fortíð sína?? Held ég lesi hana ekki, allavega ekki á næstunni ... tel það viturlegast að snúa sér að annars konar bókmenntum t.d. krimmasögum (já eða bara skólabókunum hmmm....). Keypti mér einmitt bók eftir Arnald Indriðason, Glasbruket (Mýrin) og stefni á lestarlestur (lestarlestur=lesa í lestinni á leið í skólann). Spurði afgreiðslukonuna um fleiri íslenskar bækur þýddar á sænsku og hún sýndi mér Kvinna i grönt (Grafarþögn eftir Arnald) og Tystnaden (Þögnin eftir Vigdísi Gríms) en ég er búin að lesa þær báðar á íslensku svo Glasbruket varð fyrir valinu.
Rakst á umsögn um bókina á sænskri heimasíðu en þar segir að bókin sé þess virði að lesa hana meðal annars vegna óvenjulegs umhverfis..... Norðurmýrin...úúúuuu spúkí... mitt eigið hverfi.... og einnig að nöfnin í bókinni séu öðruvísi og gamaldags bwahahahahaha ;O)

mánudagur, apríl 11, 2005

Maður er bara alltaf að telja niður þessa dagana....
2 vikur í það að ég klári stæ 2B (þ.e.a.s. ef allt gengur vel sem ég vona því þetta er mjöööööög langþráður áfangi)
tæpar 4 vikur þangað til pabbi og mamma koma í heimsókn
ca.50 dagar þangað til ég flyt heim aftur!!
Vááááá hvað þetta er fljótt að líða............ :O)

laugardagur, apríl 09, 2005

Kíkti í bæinn í góða veðrinu núna áðan og um leið og ég kom heim brast á grenjandi rigning... heppin ég!! Ég náði meðal annars í myndir úr framköllun frá því Steinar var hér í heimsókn. Hann keypti LOMO vél með bláu flassi og hér er afraksturinn :O)
Heimsótti Sveinbjörgu og Gumma í gær og fékk að kíkja á dúlluna þeirra. Mikið rosalega er hún lítil og myndarleg, algjör engill sem ekki heyrðist í allan tímann. Ekki frá því að Sinfóníuhljómsveitin hafi bara tekið lagið á meðan ég hélt á henni hehehe ;O) Ég endaði hjá þeim í voða fínum kvöldmat, kjúklingur í mangochutney og rjóma með hrísgrjónum, salati og brauði. Vá þvílíkt góð tilbreyting frá pastanu og kartöflunum!!

Kíkti í bíó í skólanum með Kerstin og Tommaso á miðvikudagskvöldið, sáum Million Dollar Baby, mjög góð mynd sem ég mæli með. Var svo þreytt eftir myndina að ég dreif mig bara heim, við ætluðum á Miðvikudagsbarinn en þar sem ég sofnaði næstum í lestinni á leiðinni heim þá er ég fegin að hafa ekki farið á barinn. Enda byrjaði dagurinn kl.6:00 um morguninn með prófi og spenningi og ég var svoooo fegin að komast upp í rúm að sofa.

Jæja lærdómurinn heldur áfram og ef ég verð dugleg að læra næstu 2 vikurnar þá er aldrei að vita nema stæ 2B sé í höfn núna undir lok apríl :O)

miðvikudagur, apríl 06, 2005

ok ok ok mér finnst nýja nafnið mitt alveg ógó fyndið..... Special K.... held ég geti aldrei hætt að hlægja bwahahahahaaaha ;O) (smá svefngalsi í gangi, en HEI góða nótt)
Þetta er nú kannski ekkert til að klofna yfir, þessi spenningur minn í morgun.... Ég var bara svo glöð að ég hoppaði hæð mína (ekki svo hátt sko hehe) því eftir að hafa gengið vel í prófinu í morgun fékk ég lausnir úr öðru prófi sem ég náði (hélt ég væri alveg skítfallin) og fékk að vita dagsetningu á lokaprófi í stæ. 4B, 24.maí :O) Þessar fréttir náðu að gleðja mig svo mikið að ég fékk eitthvað æðiskast hehe.... fór í bæinn og keypti mér sólgleraugu :O) Þetta þýðir að ég get komið fyrr heim en áætlað var, sem sagt í lok maí í staðinn fyrir einhvern tímann í júní. Jamm thats all folks ;O) Sorrý ef þetta var ekki nógu krassandi... ég hef engar óléttusögur eða giftingarsögur eða sambands/sambandsslits sögur eða annars konar kjaftasögur.... kannski seinna hehe :O)
SHIIITTT!!! eg gaeti aelt af spenningi nuna (og ta meina eg ad eg se rosa rosa glod og anaegd).... segi ykkur meira tegar eg kemst i mina tölvu med islenskum stöfum ;)

sunnudagur, apríl 03, 2005

Hvar hafa dagar lífs míns áhyggjuleysi æskunnar glatað?

Þetta má ekki gleymast..... keppni í að rúlla sér niður brekkuna bak við Vífilsstaðaspítala, tína lúpínur og opna flugublóm, búa til medalíur úr pappa fyrir þann sem stökk lengst í rólustökkinu, leika sér í "tívolíinu" í Litla Skógi (tívolí=nokkur tré sem hægt var að krifra í og sveifla sér á greinunum), skrifa minningarbréf um þrastarungana sem veiðibjallan rændi úr hreiðrinu rétt hjá leynihúsinu okkar í skóginum, hoppa í hlöðunni, syngja fyrir gamla fólkið á spítalanum, labba/hjóla upp í Heiðmörk og fara í Maríuhella, halda fundi í "Gamla", tjalda í hrauninu milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar og borða nammi, safna dóti á tombólu, smíða kassabíl, hlaupa upp Gunnhildi (fjall í Heiðmörk) með Tesa, leika við hann og veltast um af hlátri yfir því hvað hann var fyndinn, tína hrútaber í hrauninu, leika leikrit til að safna pening fyrir kirkjuna hans afa, hjóla á KFC í Hafnarfirði bara til að fá STÓRAN skammt af frönskum, skottast á milli tónlistarskólans og íþróttahússins í fimleikana, kíkja niður að læk og athuga hvort þar séu fiskar....

föstudagur, apríl 01, 2005

Af hverju breytist tíminn ekki á Íslandi eins og annars staðar í Evrópu (sumartími í mars og vetrartími í október)?? Þessari spurningu hefur verið slengt framan í mig hvað eftir annað vegna tímaskiptana síðasta sunnudag. Ég veit eiginlega ekki hverju ég á að svara en hef bullað eitthvað um að Ísland liggi svo norðarlega og það er dimmt allan sólarhringinn á veturna og bjart allan sólarhringinn á sumrin og þess vegna skiptir ekki máli einn klukkutími til eða frá.....??!! En ef þið vitið svarið við þessu þá endilega skrifið í komment!!!

Svo var ég að setja inn nýjar myndir!! Ég er í úlpunni minni allt þetta myndatímabil en verð sennilega í jakka á því næsta og stuttermabol/hlírabol á þarnæsta.... Veðrið er eins og það gerist best og þykir mér miður að sitja inni að læra þegar sólin skín og hlýtt er úti. Ég get sennilega bráðum farið að spóka mig um í nýjapilsinumínuognýjuskónummínum hmmmmm.....